Fjármálaleikarnir er stafræn keppni í fjármálalæsi milli grunnskóla. Nemendur á unglingastigi fá þá tækifæri til að spreyta sig á fjölbreyttum spurningum um fjármál og keppa í nafni síns skóla. Keppnin er rekin af Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF).
Fjármálaleikar eru netspurningaleikur þar sem hver þátttakandi skráir sig til leiks á vefslóðinni Fjarmalaleikar.is. Við skráningu gefur þátttakandi upp nafn, aldur, netfang og heiti skóla og þar með er viðkomandi skóli orðinn þátttakandi í leiknum. Ekki þurfa allir nemendur í árgangi að skrá þátttöku til að viðkomandi skóli teljist með, en lágmarksfjöldi skráðra þátttakenda úr hverjum skóla er tíu. Árangur hvers skóla er reiknaður hlutfallslega miðað við fjölda þátttakenda og fjölda nemenda í árganginum. Niðurstöður verða eingöngu teknar saman hjá þeim nemendum sem klára að svara öllum spurningunum. Sérstakur hnappur er fyrir kennara sem vilja fylgjast með gangi leikanna – þeir skrá sig þá til leiks í „Kennaraskólann“. Kennarinn þarf ekki að klára leik eða svara spurningum, frekar en hann vill.
Sigurskóli Fjármálaleikanna fær að senda tvo nemendur til Brussel ásamt kennara til að taka þátt í úrslitum Evrópukeppninnar í fjármálalæsi.