Copy

Komið sæl, nú er liðið rúmlega ár frá því að stafræna umbreytingateymið var stofnað í júní árið 2021. Margt hefur gerst á þeim stutta tíma, umsókn um fjárhagsaðstoð er komin í loftið hjá nokkrum sveitarfélögum, greining var gerð á stöðu skrifstofuhugbúnaðar sveitarfélaga og áhættugreining kennsluhugbúnaðar fór í loftið. Fleiri verkefni hófust síðastliðna mánuði eins og gagnalón, vegvísir þjónustu á Ísland.is, Microsoft leyfamál, einfaldari skjalamál og rafræn skil. Og í haust verður farið af stað með spjallmenni, umsókn um félagslegt leiguhúsnæði og umsókn um heimildagreiðslur.

Stafræni vefurinn hefur vaxið til muna undanfarið ár með reynslusögum, lausnum á Lausnatorgi og alls kyns leiðbeiningum og sniðmátum í Kistunni. Einnig eru haldin reglulega vefkaffi, hægt að skrá inn hugmyndir í hugmyndabanka ásamt því að fylgjast með fréttum, fræðsluefni, greinum og upptökur af ráðstefnum.

Ein ráðstefna og eitt málþing hafa verið haldin á síðastliðnu ári þar sem farið var yfir allar helstu upplýsingar um stafræn málefni sveitarfélaga.

Til að fylgjast með þessari hröðu stafrænu vegferð sem sveitarfélögin eru í, endilega fylgist með á Facebook síðu stafrænna sveitarfélaga.

Nú er framundan sumarfrí hjá flestum en við höldum áfram okkar samstarfi í stafrænni þróun í haust. Hafið það gott í sumar!