Vegvísir þjónustu á Ísland.is

Eitt af sameiginlegum verkefnum sveitarfélaganna í stafrænni umbreytingu árið 2022 er að vinna að vegvísi um þróun sjálfsafgreiðslulausna sveitarfélaga á Ísland.is. Samningurinn er gerður á grunni rammasamnings Stafræns Íslands (nr. 21316) við þverfagleg teymi um gerð og þróun stafrænnar þjónustu á Ísland.is.

Verkefnið hófst: apríl 2022.
Verkefni lauk: ágúst 2022.

Um verkefnið

Samband íslenskra sveitarfélaga stýrir samvinnu sveitarfélaga um uppbyggingu stafrænnar þjónustu við íbúa og fyrirtæki.

Fyrsta stafræna samvinnuverkefni af þessu tagi var umsókn um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem var unnin í samstarfi við Stafrænt Ísland og sett upp í umsóknarkerfi Ísland.is.

Verkefnið er nú í innleiðingu hjá sveitarfélögum og hefur vinnsluferlið gefið reynslu af sértækum viðfangsefnum og hindrunum í því að gera sameiginlegar stafræna lausnir fyrir sveitarfélög í umhverfi Ísland.is. Reynsla sem hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að Samband íslenskra sveitarfélaga og Stafrænt Ísland hafa ákveðið að skoða frekari samvinnu um að einfalda líf fólks í sveitarfélögum landsins. 

Til að stuðla að því að sú samvinna verði markviss hafa aðilar ákveðið að nota reynslu af gerð umsóknar um fjárhagsaðstoð sem grunn að tillögu um framtíðarfyrirkomulag þjónustuferla sveitarfélaga á Ísland.is og forgangsröðun þeirra ferla sem sveitarfélög vilja setja upp með þeim hætti.

Tilgangur verkefnis

  • Að greina helstu þjónustuferli sveitarfélaga við borgara og fyrirtæki með tillit til þess hverjir henti sem sjálfsafgreiðsluferli inn á Ísland.is.
  • Að forgangsraða uppsetningu sjálfsafgreiðsluferla sveitarfélaga á Ísland.is.

Markmið

  • Afurðir verkefnisins er greining á þeim þjónustuferlum sem sveitarfélög eru sammála um að gera stafræna og aðgengilega á Ísland.is, ásamt vegvísi til tveggja ára með forgangsröðun verkefna.  Þar sem fram kemur áætlun um hvenær einstakir ferlar verða settir upp og áætlað umfang þeirra. Vegvísinn skal innihalda umfjöllun um helstu tæknilegu hindranir, nauðsynleg gögn og vefþjónustur til vinnslu hverrar umsóknar.
  • Greiningin skal alfarið byggja á tæknilegri högun Ísland.is og reynslu af umsókn um fjárhagsaðstoð á Ísland.is. Þannig að hægt verði að endurnýta og skala lausnir með því að nota sameiginlegt hönnunarkerfi, viðmótseiningar, gagnatengingar við stofnanir, miðlæga innskráningu, umsóknarkerfi, greiðslukerfi, tæknistakk og tæknistefnu.
  • Greiningin mun skoða ferli sveitarfélaga í heild, þ.m.t. þarfir þeirra varðandi skjalavistun skv. lögum um þjóðskjalasafn. 
  • Verkáætlun er unnin með kvikri aðferðarfræði og getur tekið minniháttar breytingum á verkefnum og forgangsröðun innan tímaramma samnings skv. samkomulagi við vörustjóra.

Ávinningur

  • Nýting tæknilegrar högunar sem þjónusta Ísland.is byggir á fyrir sveitarfélög
  • Íbúar og fyrirtæki í sveitarfélögum geta nýtt Ísland.is

Samstarfsaðilar

Helstu sveitarfélög í samstarfinu voru Garðabær, Hafnarfjörður, Árborg og stafrænt suðurland.

Verkefnastýring

Verkefnið var leitt af stafrænu Íslandi í samstarfi við stafrænt umbreytingateymi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kolibri voru framkvæmdaraðilar.