Aukið hagræði og betri þjónusta með stafrænu pósthólfi.
Birt á vef Stjórnarráðsins:
Skilvirkni og gagnsæi eykst og opinber þjónusta batnar með nýsamþykktum lögum Alþingis um stafrænt pósthólf. Þau fela í sér að allir með íslenska kennitölu fá slíkt pósthólf sem hið opinbera nýtir til að koma gögnum til fólks. Með lögunum verður meginreglan sú að gögnum sé miðlað til einstaklinga og lögaðila með stafrænum hætti í gegnum miðlæga gátt, sem Ísland.is er þegar vísir að.
Nýju lögin hafa í för með sér aukið öryggi gagna og hagræði á mörgum sviðum samfélagsins, auk þess að styðja við frekari framþróun á stafrænni þjónustu fyrir almenning og þar með betri opinberri þjónustu og samskiptum við hið opinbera.
Milljónir skjala gegnum stafræna pósthólfið
Gríðarlega aukin eftirspurn er eftir því að geta fengið gögn frá hinu opinbera með stafrænum hætti í stað bréfpósts og hafa opinberir aðilar brugðist við með því að stórauka sendingu skjala í stafræna pósthólfinu á Ísland.is. Þeim fjölgaði um helming á árunum 2018-2020, en í fyrra voru um 8 milljón rafræn skjöl send í gegnum stafræna pósthólfið. Áætlað er að þeim fjölgi verulega á þessu ári og verði um 12 milljónir. Áfram verður hægt að óska eftir því að fá bréfpóst, kjósi fólk heldur þann sendingarmáta.
Auðvelt er að nálgast gögn í pósthólfinu en með rafrænni auðkenningu getur hver og einn tengst sínu eigin stafræna pósthólfi á Ísland.is.
Stafræna pósthólfið hefur verið starfrækt á vefnum Ísland.is í nokkur ár. Um 30 opinberir aðilar nýta sér þann möguleika að birta þar ýmis skjöl, svo sem staðfestingar og niðurstöður umsókna. Á Ísland.is er að finna leiðbeiningar fyrir stofnanir sem áhuga hafa á að nýta pósthólfið.
Nýsamþykkt lög leiða af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 2017 um byggja skuli upp stafræna þjónustugátt þar sem landsmenn geti á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og stefnu ríkisstjórnarinnar frá 2019 um að árið 2020 skuli stafræn þjónusta verða meginleið samskipta á milli almennings og, hins opinbera. Enn fremur var samþykkt þingsályktun í janúar 2020 þar sem segir að fjármála- og efnahagsráðherra skuli stórefla vinnu er varðar gæði rafrænnar þjónustu hins opinbera gagnvart almenningi.
Hvað er stafrænt pósthólf?
Stafrænt pósthólf er örugg leið til að miðla gögnum frá opinberum aðilum til einstaklinga og lögaðila.
Allir með íslenska kennitölu eiga stafrænt pósthólf sem heldur utan um opinber gögn viðkomandi. Pósthólfið er aðgangsstýrt svæði aðeins aðgengilegt, eiganda viðkomandi kennitölu, með rafrænum skilríkjum gegnum Ísland.is.
Stofnanir og sveitarfélög birta fjölbreytileg gögn í pósthólfinu, svo sem upplýsingar um fasteignagjöld, launaseðla, og álagningaseðla.