Fimm hlutu Stjórnunarverðlaun 2022

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi voru veitt í gær við hátíðlega athöfn á Grand hótel að viðstöddum Forseta Íslands. Veitt voru verðlaun í þremur flokkum.

Sigurjón Ólafsson sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs Hafnarfjarðarbæjar var í hópi þeirra fimm stjórnenda sem tók á móti verðlaunum og viðurkenningu fyrir fagleg störf og stjórnun. Sigurjón er meðlimur í faghóp um stafræna umbreytingu sveitarfélaga var stofnaður í desember 2019.

Birt á vef Hafnarfjarðar:

Verðlaunum ætlað að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda 

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi eru árlega veitt stjórnendum fyrirtækja og stofnana sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Yfirlýst markmið verðlaunanna er að stuðla að aukinni fagmennsku á sviði stjórnunar á Íslandi. Einnig er þeim ætlað að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda og örva umræðu um faglega stjórnun. Handhafar Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2022 eru í flokki yfirstjórnenda Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar tryggingafélags og Jóhann B. Skúlason yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna. Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa, og Sigurjón Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu-og þróunarsviðs Hafnarfjarðarbæjar, voru verðlaunuð í flokki millistjórnenda og Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri AVO, í flokki frumkvöðla.

Verðlaunahafar ásamt Borghildi Erlingsdóttur, formanni dómnefndar og forstjóra Hugverkastofu, og Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Sigurjón Ólafsson stendur við hlið forsetans. Mynd: Stjórnvísi 

Í dómnefnd sátu:

  • Borghildur Erlingsdóttir, formaður dómnefndar og forstjóri Hugverkastofunnar
  • Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Viss ehf.
  • Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
  • Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs
  • Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Festi hf. og fyrrverandi forstjóri Icepharma hf.
  • Salóme Guðmundsdóttir, stjórnarmaður hjá Eyri Ventures
  • Þröstur Olaf Sigurjónsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
  • Ritari dómnefndar er Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi

Réttur maður á réttum stað

Sigurjón Ólafsson ár hefur frá árinu 2019 leitt nýtt svið þjónustu- og þróunar hjá Hafnarfjarðarbæ. Stofnun sviðsins og tilkoma stjórnandans markaði upphafið á stafrænu ferðalagi sveitarfélagsins sem í dag telur um 30.000 íbúa og 2.000 starfsmenn. 

Þjónustu- og þróunarsvið starfar þvert á allar einingar bæjarins og snýr stafræn umbreyting að öllum sviðum, starfsstöðvum og starfseiningum sem gerir allt starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hluta af teyminu í þessari stafrænu vegferð. Árangurinn er þegar orðinn sýnilegur og í farvatninu innleiðing á fjölda stærri og smærri verkefna til viðbótar við þau sem þegar hafa verið innleidd. Sigurjón hefur sýnt það og sannað með metnaði sínum og faglegri forystu að hann er réttur maður á réttum stað. Strax í upphafi var, undir hans stjórn, mótuð þjónustustefna og dregin fram mikilvæg gögn og mælingar sem nýtt hafa verið til að taka réttar ákvarðanir og auka gagnsæi. Mikil framvinda hefur orðið í stafrænni þjónustu sveitarfélagsins síðustu tvö árin og mikil gróska og nýsköpun í kortunum.

Hátt í 20 ára stjórnunarreynsla

Frá árinu 2013 rak Sigurjón sitt eigið fyrirtæki sem sérhæfði sig í vefráðgjöf, og tók á þeim vettvangi þátt í stafrænni vegferð margra fyrirtækja og ekki síst opinberra fyrirtækja þar sem hann stýrði stórum verkefnum og aðstoðaði við umbreytingu á stafrænni þróun. Hann kom m.a. að hönnun og þróun á nýjum vef Hafnarfjarðarbæjar á árinu 2016 og hlaut vefurinn þá Íslensku vefverðlaunin (SVEF) sem besti opinberi vefur ársins. Á sama tíma starfaði Sigurjón sem aðjúnkt í vefmiðlun við Háskóla Íslands. Stjórnunarreynslan spannar hátt í 20 ár. Áður en hann sneri sér að eigin rekstri starfaði Sigurjón sem deildarstjóri vef- og netbanka Íslandsbanka, vef- og kynningarstjóri hjá Háskóla Íslands og deildarstjóri vefdeildar hjá Kaupþing banka.

Einstakur stjórnandi og faglegur leiðtogi þvert á svið og sveitarfélög

Sigurjón er einstakur og frábær leiðtogi sem hefur með yfirvegun sinni, virkri hlustun, reynslu og fagmennsku leitt stafræna innleiðingu í stóru sveitarfélagi. Á rétt rúmum tveimur árum í starfi hefur hann lagt áherslu á að hlusta og hvetja fólkið sitt áfram, planta mikilvægum fræjum, deila ábyrgð og hugmyndum, leiða saman rétta aðila og hópa og leiða til framkvæmda og árangurs verkefni á fjölbreyttu sviði. Hann hefur frá fyrsta degi lagt áherslu á að gera þjónustu bæjarins snjallari, breyta stafrænni ásýnd og innleiða ný vinnubrögð og hugsunarhátt með virkri þátttöku allra viðeigandi aðila. Samhliða er hann ávallt reiðubúinn til að deila nýjum hugmyndum, lausnum og nýsköpun með öðrum. Þannig hefur hann m.a. unnið markvisst að auknu samstarfi milli sveitarfélaga á fjölbreyttu sviði.

Reynsla Sigurjóns, framtíðarsýn og lausnamiðuð hugsun hefur haft mikilvæg og hvetjandi áhrif á mannauð Hafnarfjarðarbæjar og á samstarf íslenskra sveitarfélaga á þessu sviði. Framtíðarsýnin er skýr. Stafrænar umbreytingar og snjallar lausnir hjá stóru sveitarfélagi sem straumlínulaga þjónustuna, auka þjónustustigið, gera þjónustuna hagkvæmari og skilvirkari og stuðla á sama tíma að aukinni og vel þeginni sjálfsafgreiðslu.

Blogg Sigurjóns um stafræna vegferð sveitarfélagsins