Veðskuldabréfi hefur í fyrsta sinn verið þinglýst rafrænt hér á Íslandi, í sjálfvirku ferli. Undir merkjum verkefnisins Stafræn þjónusta sýslumanna hafa sýslumenn, dómsmálaráðuneytið, Þjóðskrá, Stafrænt Ísland og fleiri unnið að stafrænum lausnum á tímafrekum og algengum viðvikum almennings hjá sýslumönnum.
Birt á vef Stjórnarráðsins:
Veðskuldabréfum vegna bifreiðakaupa og endurfjármögnunar fasteignalána þarf að þinglýsa hjá sýslumönnum og hefur það ferli haft í för með sér ferðir á milli staða til að safna undirskriftum og til að skila inn pappírum. Nú geta fjármálastofnanir þinglýst veðskuldabréfum rafrænt ef um er að ræða bifreiðakaup eða ný fasteignalán með beinlínutengingu frá eigin kerfum og yfir í vefþjónustu rafrænna þinglýsinga.
Þessi rafræna þinglýsing markar lok þriðja stóra áfanga verkefnisins um Stafræna þjónustu sýslumanna, en fyrr á árinu var lokið við rafrænar aflýsingar og rafrænar skilmálabreytingar vegna Covid. Hér að neðan má sjá tölur um upptöku rafrænna aflýsinga en allar helstu fjármálastofnanir hafa nú þegar tekið þá lausn í notkun. Verkefninu í heild sinni er þó hvergi nærri lokið en fram undan eru rafrænar þinglýsingar vegna fasteignaviðskipta og skjala sem gefin eru út af sýslumönnum.
Fyrsta veðskuldabréfið, sem þinglýst var með þessum hætti, var veðskuldabréf vegna bifreiðakaupa. Er þess að vænta að með haustinu fari almenningur í auknum mæli að sjá ávinninginn þegar fjármálastofnanir fara að tengjast kerfinu. Ljóst er að rafrænar þinglýsingar munu einfalda störf allra sem koma að meðferð skjala, hafa jákvæð umhverfisáhrif og skapa mikið hagræði.
Í upphafi árs fór fyrsta rafræna aflýsingin í gegn en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt þetta árið. Hlutfall rafrænna aflýsinga var um 54% í lok september 2021 og aflýsingar með rafrænum hætti því tekið fram úr þeim hefðbundnu. Allt í allt hefur rúmlega 12 þúsund skjölum verið aflýst rafrænt það sem af er árinu 2021.