Gleðilega hátíð!

Kæru félagar og samstarfsfólk.

Okkar bestu þakkir fyrir samstarfið og samtalið sl. ár.

Samstarf sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu var hugmynd í upphafi ársins en er nú veruleiki og þrír starfsmenn starfa að þeim málum fyrir sveitarfélögin hjá Sambandinu síðan í júní. 

Fjöldi fólks innan sveitarfélaganna hefur lagt mikið til umræðunnar og þeirrar stefnu sem tekin hefur verið og þeirra forgangsverkefna sem valin voru fyrir árið 2022.  Það er ljóst að við erum saman að hafa mikil áhrif á tækniþróun og þjónustu sveitarfélaganna til framtíðar.  Verkefnin eru mörg, stefnumarkandi, ósýnileg og sýnileg. Fyrsta umsóknarferli sveitarfélaganna inni á Ísland.is fer í loftið með tilraunasveitarfélagi í byrjun nýs árs en þar hafa félagsmálafulltrúar sveitarfélaganna lagt mikla og mikilvæga vinnu til, en þar verður stóra áskorunin samræming vinnubragða frekar en tækni á næsta ári.  Nýr vefur stafraen.sveitarfelog.is er kominn í loftið með mjög nytsamlegu efni og aðgengi að nettum lausnum og lærdómi.  Þar hafa fræðslustjórar lagt mikla vinnu í áhættugreiningu kennsluhugbúnaðar sem aðgengileg er öllum sveitarfélögum.  Verkefni er farið af stað varðandi Microsoft leyfamál, einfaldari skjalamál og um rafræn skil en nú er verið greina stöðuna hjá sveitarfélögum.  Verkefni hefur verið í gangi með Hag- og upplýsingasvið Sambandsins um birtingu gagna.

Árið hefur verið lærdómsríkt og verður næsta ár ekki minna spennandi  í stafrænni þróun sveitarfélaganna og við hlökkum til að vinna með ykkur og takast á við þær áskoranir sem framundan eru.

Við óskum ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegrar hátíðar og farsældar og hlökkum til samstarfsins.

Kær kveðja,

Stafrænt umbreytingarteymi Sambands íslenskra sveitarfélaga