Hafnarfjarðarbær eflir stuðning við þarfir innflytjenda

Eitt af markmiðum sem nýtt þjónustu- og þróunarsvið Hafnarfjarðarbæjar setti sér þegar það tók til starfa var að mæta betur þörfum innflytjenda.

Síðastliðið ár hefur verið unnið að stöðugum umbótum í þágu innflytjenda í samstarfi við verkefnastjóra fjölmenningar á fjölskyldu- og barnamálasviði, tengiliði á öðrum sviðum bæjarins og fleiri hagsmunaaðila. Gerðar hafa verið viðhorfskannanir, mælingar á notkun efnis og notendaprófanir á vefsvæðum en markmiðið er að virkja enn betur samtal við notendur.

Nýr enskur vefur fór í loftið 1. september 2020 og hefur síðan þá verið reglulega uppfærður með öflugri fréttamiðlun á ensku og þýðingum á mikilvægum upplýsingum. Unnið er að frekari nýjungum á enska vefnum sem munu líta dagsins ljós á næstu vikum og mánuðum. Umferð um vefinn er þó nokkur en frá opnun heimsækja um 150-200 notendur vefinn í hverri viku og hver notandi skoðar 2-3 síður í heimsókn þannig að eftirspurnin er til staðar.

Samhliða vefnum hefur verið rekin öflug upplýsingamiðlun á Facebook síðunni Living in Hafnarfjörður sem verkefnastjóri fjölmenningar heldur úti og nýtur vaxandi athygli með 850 fylgjendur.

Í framhaldi af opnun á enskum vef höfum við bætt við Google Translate þýðingarvirkni á helstu tungumál sem innflytjendur í Hafnarfirði hafa að móðurmáli. Með því að hafa góðan grunn í enskum vef er áreiðanleiki þýðinga á önnur tungumál meiri en færum við þá leið að þýða beint af íslensku á önnur tungumál. Með þessari viðbót teljum við okkur mæta enn betur þörfum innflytjenda í Hafnarfirði sem telja um 13% íbúa.