Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the ultimate-member domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Please see Debugging in WordPress for more information. (This message was added in version 6.7.0.) in /nas/content/live/stafraensveita/wp-includes/functions.php on line 6114
Ísland meðal efstu ríkja í stafrænni opinberri þjónustu - Stafræn sveitarfélög

Ísland meðal efstu ríkja í stafrænni opinberri þjónustu

Ísland er í hópi fremstu ríkja heims þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu. Þetta er niðurstaðan í nýútgefnum mælikvarða Sameinuðu þjóðanna (SÞ), þar sem Ísland er í 12. sæti af 193 löndum og færist upp um sjö sæti frá síðustu mælingu, en mælikvarðinn er gefinn út á tveggja ára fresti.

Við matið horfa Sameinuðu þjóðirnar til fjögurra þátta - framboðs og gæða stafrænnar opinberrar þjónustu, stöðu tæknilegra innviða, mannauðs og netvirkni en einkunn Íslands hækkar milli mælinga í öllum þáttunum.

Ísland er í hópi fjórtán ríkja sem SÞ telur í fararbroddi í stafrænni opinberri þjónustu. Norður- og Eystrasaltslöndin skipa sér ofarlega á lista SÞ og eru Danir í fyrsta sæti, Eistar í því þriðja, Finnar í fjórða og Svíar í sjötta sæti. Norðmenn koma á hæla Íslendingum í 13. sæti.

Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og í fyrra var samþykkt aðgerðaáætlun sem leggur grunn að því að Ísland verði á meðal þeirra fremstu í heiminum þegar kemur að stafrænni stjórnsýslu og opinberri þjónustu. Stafrænt Ísland, eining innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins, vinnur markvisst að þessu með það að leiðarljósi að gera samskipti við opinbera aðila snurðulaus og þægileg.