Kortasjá Hafnarfjarðar

Kortasjá Hafnarfjarðar hefur verið í stöðugum endurbótum í framsetningu og aukinni upplýsingagjöf til íbúa.

Sigurjón Ólafsson, sviðsstjóri hjá Hafnarfjarðarbæ skrifar:

Lengi vel var ég hálf hræddur við kortasjár. Leið eins og ég þyrfti að vera verkfræðingur til að geta notað þetta, gæti mögulega skemmt eitthvað, eytt út lagnateikningum eða þaðan af verra. Þegar ég kom til starfa hjá Hafnarfjarðarbæ varð mér ljóst að þetta verkfæri væri lygilega vinsælt og því mikilvægt að hlúa vel að því. En lausnin sem við vorum með var ekki beinlínis notendavæn og býsna takmörkuð. Þannig að við skiptum um þjónustaðila og höfum í samstarfi við Loftmyndir unnið að stöðugum endurbótum í framsetningu og aukinni upplýsingagjöf til íbúa.

Kortavefurinn, eins og við kjósum að nefna lausnina, á núna fullt erindi til almennings. Til að koma því á framfæri létum við gera myndband sem sýnir glöggt hvað þetta er gagnlegt verkfæri í þjónustu við íbúa og vonumst til að auka enn frekar notkunina. Jökulá vann handritsgerð með okkur, hannaði með hliðsjón af okkar nýja hönnunarkerfi (meira um það fljótlega) og framleiddi þessa fínu afurð.