Samstarf sveitarfélaga í stafrænni þróun

Samstarf sveitarfélaga í stafrænni þróun er gríðarlega mikilvægt verkefni sem skiptir sveitarfélögin miklu máli til framtíðar.

Næstum öll sveitarfélög landsins hafa samþykkt að vinna saman að stafrænni umbreytingu. Stafrænt þróunarteymi, með þremur starfsmönnum, tók til starfa hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga nú í júní. Teymið mun vinna að framkvæmd stafrænna samstarfsverkefna sveitarfélaga í samvinnu við stafrænt ráð sem er skipað fulltrúum sveitarfélaga úr hverjum landshluta. Faghópur um stafræna umbreytingu, skipaður sérfræðingum sveitarfélaga í stafrænum málum, er stafræna ráðinu og teyminu til ráðgjafar.

Fjárfesting ríkisins vegna Covid í stafræna stjórnsýslu var veitt til að fara af stað í brautryðjendaverkefni um þróun sjálfsafgreiðsluferlis fyrir íbúa sveitarfélaga inni á Island.is.  Umsókn um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga varð fyrir valinu sem fyrsta verkefnið inn á sameiginlegan vettvang fyrir sveitarfélögin á Island.is.  Þetta verkefni hófst í apríl sl. og mun ljúka í lok nóvember á þessu ári.  

Stafræna þróunarteymið hefur unnið að upplýsingavefsíðu um þau miðlæga samstarfið og hvetjum við sveitarfélög til að kynna sér vefsíðuna; https://stafraen.sveitarfelog.is/stafraen-sveitarfelog/. Vefsíðan er þó enn í mótun og vinnslu en mun eflast þegar meira efni verður sett inn á hana.

Í sl. viku fengu framkvæmdastjórar allra sveitarfélaga sem samþykkt hafa samstarf í stafrænni framþróun, könnun frá Betra Íslandi um stafræn samvinnuverkefni sveitarfélaga.  Hlekkur á könnunina er hér: https://samvinna-sveitarfelaga.betraisland.is/ .  Framkvæmdastjórar voru beðnir um að svara könnuninni fyrir 12. ágúst n.k, með sínu fólki.  Allir eru þó hvattir til að skoða könnunina og verkefnin sem þar eru sett fram en mikilvægt er að greina að hvers konar samstarfsverkefnum þarfir og áhugi sveitarfélaga beinist í megindráttum. Verkefnahugmyndir, sem fá mest fylgi, munu verða settar í nákvæmt ávinnings- og kostnaðarmat og endanleg ákvörðun um samstarfsverkefni verður tekin út frá þeim niðurstöðum.  Verkefnahugmyndirnar sem settar eru fram byggja á greiningu á stafrænni stöðu sveitarfélaga frá því í fyrra, tillögum áðurnefnds faghóps sveitarfélaga og eru afrakstur Nýsköpunarmóts 2021 um samstarf opinberra aðila og einkaaðila. Verkefnahugmyndirnar eru 56 talsins í fimm flokkum og sveitarfélög geta bætt við hugmyndum. 

Stafræn tækni býður upp á mörg tækifæri fyrir hagkvæmari rekstur sveitarfélaga sem og betri ákvarðanatöku og þjónustu við íbúa. Sveitarfélög landsins þurfa að taka stór skref til að verða ekki eftir í hraðri tækniþróun sem á sér stað nú en til þess hafa þau takmarkað fjármagn, mannafla og þekkingu . Sveitarfélög þurfa að vinna hratt og forgangsraða til að nýta sér þau tækifæri og tæknimöguleika sem eru í boði. Í þessari vegferð eru mikil samlegðartækifæri í samstarfi sveitarfélaga til að hraða stafrænni framþróun þeirra og ná niður fjárfestingarkostnaði einstakra sveitarfélaga í stafrænum innviðum.

https://vimeo.com/591640482