Staða spjallmenna verkefnis

Spjallmenni er eitt af þeim stafrænu verkefnum sem sveitarfélögin kusu að fara í samstarf saman árið 2022.

Verkefnið hófst með því að stýrihópur var stofnaður í maí 2022 sem fundaði reglulega vegna undirbúnings verkefnisins og kom að vinnustofu sem var haldin með sérfræðingum og þjónustufulltrúum frá 11 sveitarfélögum í ágúst síðastliðnum. Þar voru greindar helstu áskoranir þjónustuvera í dag, helstu tækifæri sem felast í því að nýta spjallmenni og helstu hindranir í vegi þess að spjallmenni nýtist sem skyldi (sjá niðurstöður greiningar). Í nóvember var sent út bréf á öll sveitarfélög þar sem óskað var eftir staðfestingu á þátttöku sveitarfélaga í verkefninu. Það voru alls 23 sveitarfélög sem skráðu sig til þátttöku með samtals 327.488 íbúum.

Verðfyrirspurn

Undanfarnar vikur hefur verið unnin verðfyrirspurn vegna spjallmennisins með aðkomu starfsfólks sambandsins, þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar og innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Nú er sú verðfyrirspurn komin á útboðsvef Reykjavíkurborgar og fyrirspurnarfrestur bjóðenda rennur út þann 7.mars kl. 12:00.

Efnisvinnsla

Vinna við efnisvinnslu fyrir spjallmennið hófst í desember og mun ljúka í mars/apríl. Þjónustufulltrúar frá 11 sveitarfélögum eru að útbúa spurningar fyrir spjallmennið í hinum ýmsu flokkum sem við koma sveitarfélögum.

Markmið og tækifæri

Markmið verkefnisins eru að hanna sameiginlegan tæknigrunn fyrir spjallmenni fyrir sveitarfélögin, kaupa sameiginlega lausn sem er aðlöguð að hverju sveitarfélagi og að fleiri þjónustubeiðnir séu afgreiddar í fyrstu snertingu án aðkomu starfsfólks.

Tækifærin með notkun spjallmennis felast í bættri og nútímalegri þjónustu við íbúa, en einnig minna álagi og bættu upplýsingaflæði í þjónustuverum.

Nánari upplýsingar vegna verkefnisins