Stafræn framtíð Evrópu

Stafræn framtíð Evrópu er eitt af helstu málum á vettvangi ESB árið 2022.

Stafræn framtíð Evrópu er áfram ofarlega á dagskrá framkvæmdastjórnar ESB. Umhverfi okkar tekur örum breytingum þessi misserin vegna stafrænnar þróunar, sem hefur á stuttum tíma gerbreytt hvernig við störfum og hegðum okkur. Þá er ljóst að áhrif Covid-19 faraldursins hafa þrýst enn frekar á þörfina fyrir stafrænar lausnir. Í breytingum sem þessum felast tækifæri en einnig áskoranir fyrir sveitarfélög.

Stafræn framtíð býr yfir miklum drifkrafti breytinga hvort sem horft er til viðskiptalífs eða samfélagsgerðar og tækifærin felast m.a. í nýjum samskiptaleiðum, bættri þjónustu og hvernig verslun og viðskiptum verður háttað í framtíðinni. Áskoranirnar snúa hins vegar einnig að siðferðilegum álitefnum í tengslum við notkun á gervigreind við úrvinnslu persónulegra gagna.

Stafræn framtíð Evrópu er sýn ESB á það með hvaða hætti Evrópa geti orðið leiðandi á sviði stafrænnar tækni, bæði sem brautryðjandi við þróun tækninnar og ekki síður þegar kemur að því að nýta sér hana. Á sama tíma leggur ESB áherslu á mikilvægi þess að Evrópa haldi fast í þau grunngildi sem íbúar álfunnar búa við, sem snúa m.a. að siðferðilegum spurningum í tengslum við notkun á gervigreind við greiningu og miðlun upplýsinga.

Aðgerðir í tengslum við stafræna framtíð Evrópu sem ESB hefur sett fram:

Í fyrsta lagi er um að ræða grunnreglur um meðferð upplýsinga (Data Act) sem er ætlað að tryggja örygi gagna, en stuðla jafnframt að því að Evrópa geti nýtt sér sem best hið gríðarlega magn af upplýsingum sem ný tækni gerir bæði aðgengilegar og hugsanlega mjög gagnlegar á mörgum sviðum.

Í öðru lagi vinnur ESB að stefnumótun og löggjöf sem tengist hagnýtingu á tækni sem byggir á gervigreind. Þessi vinna byggir á Hvítbók sem kom út árið 2020, en hún markaði upphafið að stefnumótun og framtíðar löggjöf innan ESB hvað þessi mál varðar.

Sveitarstjórnarvettvangur EES-EFTA fjallaði um leiðbeinandi siðareglur ESB um ábyrga hagnýtingu á gervigreind á fundi sínum í desember 2019. Í ályktun sem samþykkt var á fundinum eru sveitarfélög hvött til þess að fylgist grannt með þróun gervigreindar og áréttað að aðkoma sveitarfélaga verði tryggð við stefnumótun og reglusetningu stjórnvalda varðandi þessi mál. Ljóst er að í þessari tækni felast tækifæri fyrir sveitarfélög, m.a. í tengslum við bætta þjónustu við almenning. Í ályktuninni er hins vegar áréttað að huga þarf vel að mannréttindum í tengslum við notkun á gervigreind, t.d. hvað varðar heilsufarslegar upplýsingar og aðrar viðkvæmar persónuupplýsingar. Framkvæmdastjórn ESB hefur nú kynnt til sögunnar drög að reglugerð varðandi notkun á gervigreind (Regulation laying down harmonised rules on artificial intelligence).

Í þriðja lagi vinnur ESB að gerðum um stafræna þjónustu (Digital Service Act) og stafræna markaði (Digital Markets Act). Markmiðið er m.a. að skilgreina betur lagalegan grunn ESB fyrir stafræna þjónustu og markaði, þá einkum með tilliti til smærri fyrirtækja. Þá þarf einnig að huga að rétti neytenda. Evrópuþingið samþykkti tillögur framkvæmdastjórnar ESB varðandi Digital Services Act í janúar á þessu ári og þá má fastlega má gera ráð fyrir að ráðherrar aðildarríkja ESB samþykki gerðina seinna á þessu ári. Gerðin er hluti af þjónustutilskipun ESB frá 2006 sem var innleidd á Íslandi árið 2011 og því má leiða líkum að því að gerðin falli undir EES samninginn og verði þar af leiðandi innleidd hér á landi.

Stafræn framtíð Evrópu og öryggismál:

Stafræn tækni og öryggismál eru samofin og framkvæmdastjórn ESB hóf árið 2020 endurskoðum á tilskipun frá 2016 sem snýr að netöryggi. Tilskipunin sem um ræðir tók gildi á Íslandi með lögum, nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða. Því er ljóst að endurskoðuð tilskipun mun að öllum líkindum einnig verða innleidd á Íslandi. Lögin eru þau fyrstu sem snúa að netöryggi á Íslandi og markmið þeirra er að auka öryggi net- og upplýsingakerfa sem tengjast rekstri mikilvægra efnahags- og samfélagslegra innviða. Þá er þeim einnig ætlað að bæta viðnámsþrótt þessara innviða komi til netárása og samræma viðbrögð við slíkum atvikum. Lögin ná til margskonar starfsemi og þar á meðal starfsemi sem fellur undir starfsvið sveitarfélaga, m.a. rekstur heilbrigðisþjónustu, rafmagns-, hita- og vatnsveitna.

Stafræn framtíð Evrópu er eitt af áherslumálum evrópskra hagsmunasamtaka sveitarfélaga, CEMR. Í ályktun sem CEMR sendi framkvæmdastjórn ESB í janúar á þessu ári er lögð áhersla á mikilvægi sveitarstjórnarstigsins þegar kemur að innleiðingu stafrænnar tækni og þjónustu í Evrópu. Því sé mikilvægt að sveitarstjórnarstigið sé haft með í ráðum í allri stefnumótun og lagagerð sem snýr að stafrænni framtíð álfunnar.

Listi yfir helstu mál sem ESB vinnur að og snerta sveitarfélög:

  • Tilskipun sem varðar gögn og gagnaöryggi (Data Act).
  • Reglugerð um notkun á tækni sem byggir á gervigreind (Regulation laying down harmonised rules on artificial intelligence).
  • Stafræn þjónusta (Digital Service Act).
  • Stafrænir markaðir (Digital Markets Act).
  • Stafrænt evrópskt nafnskírteini.

Brussel-skrifstofa mun fylgjast með framvindu þessara mála og miðla upplýsingum um þau.

Sjá nánar um helstu mál á vettvangi ESB árið 2022