Sveitarfélagaskólinn á stafrænu formi

Sveitarfélagaskólinn er vettvangur með stafrænum námskeiðum fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk sveitarfélaga. Vorið 2022 munu fyrstu námskeiðin verða aðgengileg fyrir nýkjörið sveitarstjórnarfólk og stefnt er að því að gera aðgengileg stafræn námskeið fyrir kjörna fulltrúa í nefndum sveitarfélaga að hausti 2022.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur um langt skeið staðið fyrir fræðslu í upphafi kjörtímabils fyrir nýkjörið sveitarstjórnarfólk með staðnámskeiðum. Þar var farið yfir helstu atriði er sveitarstjórnarfólk þarf að þekkja; m.a. starfsumhverfi, skyldur og hlutverk sveitarstjórna, fjármál sveitarfélaga og margt fleira.

Til að auka aðgengi að fræðslunni og gera hana sveigjanlegri, gagnvirkari og dýpri var ákveðið að færa námskeiðsefnið yfir á stafrænt form. Í samstarfi við Opna háskólann í Reykjavík hafa þegar verið framleidd níu stafræn námskeið sem standa munu sveitarstjórnarfólki til boða gegn vægu gjaldi.  Námskeiðin byggja á þeim grunni sem eldri staðnámskeiðin lögðu til. Í viðhengi er að finna frekari upplýsingar um Sveitarfélagaskólann, ásamt yfirliti yfir námskeiðin níu og innihald hvers þeirra fyrir sig.  

Sveitarfélagaskólinn opnar strax eftir kosningar þann 16. maí og verða flest námskeiðin aðgengileg þá þegar og hin fylgja fljótlega í kjölfarið. Við hvetjum stjórnendur sveitarfélaga til að kaupa aðgang að námskeiðunum fyrir nýkjörið, sem og endurkjörið sveitarstjórnarfólk strax að loknum kosningum.

Eitt námskeiðið heitir Fyrstu skrefin þar sem meðal annars er fjallað um mikilvægi fyrsta fundar sveitarstjórnar, helstu leikreglur sveitarstjórna og ráðningu framkvæmdastjóra. Að þekkja til þessara atriða getur gert fyrsta fund sveitarstjórnar markvissari og einnig létt undir í undirbúningi fyrir fyrsta fund.

Athygli er einnig vakin á því að þótt námskeiðin séu hugsuð fyrir nýkjörið sveitarstjórnarfólk þá eru námskeiðin mjög nytsamleg fyrir starfsfólk sveitarfélaga, t.d. sviðsstjóra og starfsmenn nefnda. 

Nauðsynlegt er að skrá hvern og einn þátttakanda frá sveitarfélaginu á skráningarsíðunni hér fyrir neðan. 

Skráningargjald fyrir hvern þátttakanda er 10.000 kr. á ári.

Smellið hér til að skrá þátttakendur í Sveitarfélagaskólann

Vonir sambandsins standa til þess að með Sveitarfélagaskólanum verði námsefnið skemmtilegra, skipulagðara og aðgengilegra fyrir þátttakendur, en einnig að námskeiðin efli sveitarstjórnarfólk til góðra starfa sveitarfélagi og samfélagi til heilla.