Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert samning til eins árs við danska hugbúnaðarfyrirtækið Cludo fyrir hönd 20 sveitarfélaga um að innleiða heildstæða lausn fyrir vefsíður sem innifelur í sér hefðbundna leit og gagnvirkt gervigreindarspjall sem nýtir risamállíkan (GPT-4).
Lausnin er afurð samstarfs Cludo og Miðeindar þar sem leitarvélin kemur frá Cludo og gervigreindarspjallmennið frá Miðeind.
Sveitarfélögin í samstarfinu munu fá uppsetta leitarvél sem byggir á gervigreindarspjallmenni á sína vefsíðu með notendavænu viðmóti ásamt greiningartóli sem inniheldur meðal annars upplýsingar um umferð og eðli spurninga frá íbúum.
Í verkefninu var upphaflega lagt upp með að innleiða hefðbundið spjallmenni sem inniheldur fyrirfram skilgreindar spurningar og svör. Slík lausn hefur mjög takmarkaðan málskilning og notendaupplifun er oft ábótavant. Með því að nota spurningasvörun með gervigreind þarf ekki að handvinna svör heldur býr lausnin þau til, byggt á vefsíðum sveitarfélaganna ásamt öllum skjölum sem þar er að finna.
Innleiðing á lausninni mun bæta þjónustu við íbúa með því að auka þeirra aðgengi að upplýsingum og þjónustu sveitarfélaga. Einnig mun hærra hlutfall þjónustubeiðna vera leyst án aðkomu starfsfólks sveitarfélaga þegar íbúar geta sett inn sína fyrirspurn í leitina eða spjallmennið í stað þess að hringja eða senda tölvupóst.
Alls eru 23 sveitarfélög í samstarfinu en þrjú þeirra eru annaðhvort í innleiðingarferli eða nú þegar búið að innleiða leitarlausnina frá Cludo og fá gervigreindarspjallið frá Miðeind sem viðbót.
Samningurinn er þróunarsamningur og gildir frá 1.mars 2024 til 1.mars 2025. Eftir að þróunartímabili lýkur geta sveitarfélögin sjálf haldið áfram að nýta lausnina og gert nýjan samning við Cludo.
Stefnt er á að innleiðingin hefjist í lok október og ljúki fyrir 1.mars 2024. Innleiðingin mun að fyrstu innihalda leitarvélina, svo bætist við lausnina gervigreindarspjallið í kringum næstu áramót.
Verkefnið var kynnt á ráðstefnunni stafræn sveitarfélög – samvinna er lykillinn þann 6.október síðastliðinn.