Umsókn um fjárhagsaðstoð á Ísland.is

Fjárhagsaðstoð til fólks sem ekki getur séð sér og sínum farborða án aðstoðar er mikilvægt málefni sem sveitarfélögin tóku ákvörðun um að vinna að sameiginlega við þróun stafrænnar lausnar inn á miðlægan þjónustuvef Ísland.is.

Reykjavíkurborg hefur nú þegar hannað ferlið og innleitt nýja lausn og nýtist sú hugmyndafræði við hönnun lausnarinnar sem nú verður aðgengileg öðrum sveitarfélögum landsins. 

Markmiðið er að einfalda og bæta þjónustu við notendur hvar á landinu sem þeir eru, fækka skrefum og um leið tryggja öryggi og stöðugleika við umsýslu umsókna.  Lausnin er hýst og viðhaldið á miðlægum stað um leið og tæknilegir innviðir Ísland.is eru nýttir, svo sem eins og Straumurinn.

Markmið fyrstu lotu verkefnisins er að þróa lausnina fyrir eitt tilraunasveitarfélag sem gangsett verður í haust og markmið síðari lotu verkefnisins verður sjálfvirk gagnaöflun og gangsetning lausnar hjá öðrum sveitarfélögum.

Verkefnið er fyrsta skrefið í sameiginlegri vegferð sveitarfélaga í samvinnu við Stafrænt Ísland og nýtingu tæknilegra innviða sem byggðir hafa verið upp hjá ríkinu og innlegg í þá framtíðarsýn að vinna fleiri umsóknarferla sameiginlega á miðlægan stað. Helsta áskorunin er mismunandi verklag sveitarfélaga við veitingu fjárhagsaðstoðar og verður því lagt kapp á að aðstoða þau við endurhönnun á verklagi út frá nýrri tækni.

Ávinningur sveitarfélaga með nýrri tækni er einföld og notendavæn umsókn sem leiðir notandann í gegnum ferlið með sjálfvirkri gagnaöflun og nýtingu innviða ríkisins eins og Straumsins og rafræns pósthólfs og minni tími í útskýringar og upplýsingamiðlunar um stöðu til umsækjenda.  Ávinningur umsækjanda er gott aðgengi, notendavæn umsókn, minni tími í söfnun fylgiskjala og betri yfirsýni yfir umsóknina og stöðu hennar.

Ríkið fjármagnar verkefnið sem hófst í apríl 2021 og eru áætluð verklok í lok nóvember 2021.  Verkefnið er unnið í samstarfi við Stafrænt Ísland, Kolibri og Andes.