Úttekt á stöðu samræmds skrifstofuhugbúnaðar

Stafrænt umbreytingateymi Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur samið við KPMG um að gera úttekt á stöðu samræmds skrifstofuhugbúnaðar hjá íslenskum sveitarfélögum.

Úttektin er liður í undirbúningi fyrir samvinnuverkefni sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu á næsta ári sem snúa að hugbúnaðarleyfamálum og rafrænni skjalavörslu.

Fljótlega verður send út spurningakönnun á framkvæmdastjóra sveitarfélaga þar sem m.a. er óskað eftir upplýsingum um mála- og skjalakerfi, Microsoft hugbúnaðarleyfi og rafræn skil til héraðsskjalasafna eða Þjóðskjalasafns. Lokafrestur að svara spurningakönnuninni er 17.desember. Í kjölfarið verða tekin viðtöl við nokkur valin sveitarfélög til að öðlast dýpri skilning á stöðunni.

Markmið greiningarverkefnisins er að fá heildstæða mynd af því hvernig þessum málum er háttað meðal sveitarfélaga og þegar niðurstöður hafa verið dregnar saman verður stillt upp sviðsmyndum fyrir framtíðarstöðu í þessum málaflokkum. Niðurstöðurnar verða svo í framhaldinu nýttar í samvinnuverkefnum stafræna umbreytingateymisins á næsta ári.