Vinnustofa fyrir spjallmenni sveitarfélaga

Vinnustofa vegna spjallmennis fyrir sveitarfélögin var haldin þann 22.ágúst í höfuðstöðvum Reykjavíkurborgar. Það var mjög góð mæting, bæði af þjónustufulltrúum og sérfræðingum. Alls mættu 35 manns frá 11 sveitarfélögum.

Fyrir hádegi byrjaði dagurinn á kynningu um verkefnið sjálft frá stafræna umbreytingateymi sambandsins. Þar á eftir hélt Fríða Rut frá stafrænu Íslandi kynningu á þeirra innleiðingarferli á spjallmenni og sömuleiðis Hrefna Dís og Rakel Sigrún frá Íslandsbanka. Anna Björk frá Gramatek sagði svo frá forgreiningu sem hún hefur unnið að fyrir sveitarfélögin. Þá var skipt í hópa og farið í að skoða áskoranir í framlínu, tækifæri sem gætu myndast með spjallmenni og hvað gæti haldið aftur árangri.

Eftir hádegi fór fram umræða um mögulegt stjórnskipulag og útboð. Kynnt var hvernig rekstur spjallmenna hjá sveitarfélögum í Danmörku fer fram. Ræddir voru möguleikar hvernig sameiginlegur rekstur gæti orðið hjá sveitarfélögum á Íslandi. Einnig var rætt um möguleikann á því að fara saman í útboð hjá Ríkiskaupum.

Þarfagreining verður unnin upp úr niðurstöðum vinnustofunnar sem mun sýna fram á þau tækifæri og áskoranir sem munu felast samstarfinu. Þessi greining mun verða til grundvallar að næstu skrefum í ákvörðunum sveitarfélaga varðandi að fara í samstarf með spjallmenni.