Grein eftir Fjólu Maríu Ágústsdóttir sem birtist í Morgunblaðinu þann 15.apríl 2020
Fjóla María Ágústsdóttir skrifar
Á Íslandi erum við mjög vel stödd hvað varðar tæknilega innviði. Við erum í fyrsta sæti í heiminum þegar litið er til aðgengis að háhraða nettengingum og í öðru sæti í internetnotkun. Samkvæmt World Economic Forum höfum við hins vegar dregist aftur úr í sambanburði þjóða þegar kemur að þjónustu hins opinbera á stafrænu formi. Þjóðirnar í kringum okkur hafa verið mun markvissari í stafrænni vegferð hins opinbera. Við erum stutt á veg komin þó íslenska ríkið hafi unnið að stefnumörkun í þessum málum um árabil en búast má við miklu framfarastökki eftir stofnun Stafræns Íslands. Nú hefur ríkið ákveðið að auka verulega fjárfestingu í tækni, stafrænum lausnum og betri upplýsingatæknikerfum. Alls verða framlög aukin um 1.350 m.kr. á árinu 2020 til verkefna á sviði nýsköpunar, upplýsingatækni, netöryggis og stafrænnar þjónustu. Um 500 m.kr. fara í verkefni Stafræns Íslands og aðrar 500 m.kr. í endurnýjun upplýsingatæknikerfa og eflingu tækniinnviða.
Samkvæmt könnun sem Stafrænt Ísland lét framkvæma um viðhorf almennings gagnvart stafrænni opinberri þjónustu, kom í ljós að 82,5% aðspurðra voru fylgjandi aukinni áherslu á stafræna þjónustu. Þessi tala hefur að öllum líkindum hækkað sl. mánuði. Í greiningum kom einnig í ljós að fólk gerir almennt ekki greinarmun á því hvaða opinbera þjónusta tilheyri ríkinu og hvaða þjónusta tilheyri sveitarfélögum. Fólki er í sjálfu sér nokkuð sama en vill bara geta nálgast þjónustuna auðveldlega, helst á einum stað og kýs stafrænar leiðir séu þær í boði.
Mjög mikilvægt er að sveitarfélögin bregðist nú við og auki einnig fjárfestingu í tækni, endurnýjun upplýsingakerfa og stafrænum lausnum en jafn mikilvægt er að sveitarfélögin velji skynsamlega leið í þeim málum.
Samvinna sveitarfélaga í stafrænni framþróun er sú leið sem þarf að fara og er forsenda þess að sveitarfélögin geti svarað væntingum og þörfum íbúa. Stafræn umbreyting er snýr að innri kerfum er einnig mjög mikilvæg og mun skila sér í hagkvæmari og skilvirkari rekstri sveitarfélaga. Fjárfesta þarf í upphafi en fjárfestingar munu skila sér margfalt til baka.
Danir fóru þá leið að fasa út ákveðnum grunnkerfum og vanda vel við kaup á grunnkerfum þvert á sveitarfélög. Grunnkerfin eru þannig valin að auðvelt er að tengja þau öðrum kerfum. Sveitarfélög í Danmörku vinna svo gjarnan saman eða nýta sömu lausnir að því er varðar kerfi sem vinna með grunnkerfum og nýta sér "open sourse" - lausnir fyrir minni kerfi sem hægt er að skipta auðveldlega út. Danirnir hafa skilgreint og skipulagt samstarf sveitarfélaga í upplýsingatækni og stafrænni framþróun mjög vel og unnið að samstarfinu í um 10 ár og náð miklum árangri og meiri gæðum í innri ferlum og í þjónustu við íbúa.
Mikilvægt er fyrir sveitarfélög að skapa rými fyrir umfjöllun og aðgerðir í stafrænni framþróun. Að sveitarfélög séu upplýst um áhrif og tækifæri stafrænnar umbreytingar er grundvallaratriði til að taka stefnumarkandi ákvarðanir um breytingar til að auka skilvirkni og bæta þjónustu. Stafræn umbreyting er breytingarverkefni og það krefst þess að fólk, samskipti, vinnubrögð og menning styðji það sem verið er að gera.
Mikið mæðir á sveitarfélögum nú og hefðu þau þurft að vera komin lengra í stafrænni framþróun, en nú má ekki spara við stafræna tækniþróun heldur gefa í og skipuleggja samstarfið og sammælast um helstu áherslur í þessum málum, tryggja mannafla til að vinna að þessu og ná hagstæðari samningum með samstarfi. Vinna þarf í samstarfi við ríkið og í takt við þær áherslur sem lagðar hafa verið. Ísland er ekki stórt og hér eru mikil tækifæri fólgin í nálægðinni og styttri ákvarðanaferlum.