Hérna birtist samantekt úr greiningu CoreMotif og Mennsk og vísir að því hvernig sveitarfélög geta nýtt sér niðurstöðurnar og jafnframt hvar vettvangur sé til samstarfs. Vísað er til skýrslna frá CoreMotif og Mennsk varðandi nánari útlistun á rannsóknum. Upplýsingum var safnað saman á tímabilinu desember 2019 til maí 2020.
Tólf sveitarfélög svöruðu engu í greiningu á stafrænu færnimati, níu svöruðu 1% - 49% af spurningunum, og 48 sveitarfélög svöruðu að lágmarki 50% spurninganna. Svarhlutfall í könnun á kerfum sveitarfélaga var samsvarandi. Borgarfjarðarhreppur, Djúpavogshreppur, Fljótsdalshérað og Seyðisfjörður voru sameinuð í Múlaþing eftir að rannsóknin var gerð og var svörum frá þeim því steypt saman.
Spurningar í stafrænu færnimati skiptust í fimm flokka
- Grunnskólar, leikskólar og æskulýðsstarf
- Skipulags-, bygginga- og framkvæmdamál
- Félagsþjónusta, barnavernd og húsnæðismál
- Fjármál
- Stjórnsýsla
Færnimatið var unnið eftir aðferðarfræði sem kallast Capability Maturity Model Integration sem byggir á fimm stiga kvarða þar sem ferli eru metin á eftirfarandi hátt:
Í heildina er stafrænt færnimat sveitarfélaga 2,4 af 5 mögulegum að meðaltali. Hafa ber í huga að hér er um að ræða sjálfsmat. Samkvæmt skilgreiningu rannsóknarinnar þýðir það að stefnumótun er hafin, verkefni eru í þróun og innleiðing stafrænna lausna er hafin. Nokkur fylgni (0,51) er milli íbúafjölda sveitarfélaga og hve háa einkunn þau fá. Það gæti bent til þess að stærri sveitarfélög eða landshlutasamtök ættu að leiða stafræna þróun og veita þeim smærri aðgang að kerfum eða þjónustu í framhaldi.
Lengst virðast sveitarfélög vera kominn í stafrænni þróun í fræðsluþjónustu, óháð því hvort litið er til íbúafjölda eða landshluta. Skemmst eru þau á veg komin í skipulagsmálum og félagsþjónustu, og fjármál og stjórnsýsla liggja þar á milli. Hér er ekki lagt mat á hvað veldur mun á milli málaflokka, en sú umræða á best heima á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaganna.
Þróun sameiginlegs miðlægs kerfis fyrir umsóknir um fjárhagsaðstoð er fyrsta skrefið sem tekið verður í samstarfi við Ísland.is til að auka samstarf sveitarfélaga á stafrænum vettvangi og mun bæta félagslega þjónustu við notendur. Horft verður til að byggja ofan á það miðlæga kerfi til að bæta enn frekar félagsþjónustu.
Til að styðja við stafræna umbreytingu sveitarfélaga hefur verið sett á fót stafrænt ráð sveitarfélaga, faghópur um stafræna umbreytingu og miðlægt umbreytingarteymi sambandsins verður stofnað í júní 2021. Þetta stjórnskipulag er sett upp til að auka og teysta samráð og samstarf sveitarfélaga í stafrænni þróun sinni.