Nýsköpunardagur hins opinbera 2022

Þriðjudaginn 17. maí sl. var fjölmenni á Nýsköpunardegi hins opinbera sem fram fór í Grósku. Þar kom saman áhugafólk um nýsköpun í opinbera geiranum til að fylgjast með fjölbreyttri dagskrá erinda. Þema dagsins í ár var græn nýsköpun þar sem flytjendur sögðu frá metnaðarfullum verkefnum á vegum sveitarfélaga, ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, nefndi í opnunar ávarpi sínu að þjónustu hins opinbera þurfi að hugsa á nýjan hátt, með sérstakri áherslu á hagnýtingu nýsköpunar. Þá tók hann sérstaklega fram að „þegar við nýtum kaupkraft hins opinbera, í stað þess að hver stofnun vinni að sínum málum í sínu horni, þá fáum við langmesta virðið fyrir almannafé, það munar gríðarlega miklu.“

En hvað er græn nýsköpun? Í hugvekju sinni skilgreindi Sveinn Margeirsson, verkefnisstjóri Nýsköpun í norðri, græna nýsköpun sem „(allskonar) nýsköpun sem styður baráttuna við loftslagsbreytingar og ýtir undir sjálfbæra þróun.“ Í kjölfarið veittu flytjendur innsýn í hvernig stafræn umbreyting, störf án staðsetningar, fjarlækningar, snjallar úrgangslausnir, jarðvarmatengd nýsköpun, grænar stefnuáherslur og vistvæn innkaup geta skilað nýju virði í formi lægra kolefnisspors og aukinnar sjálfbærni.

Upptöku af dagskránni fyrir hádegi má skoða hér að neðan. Upptaka af samtali Gunnars Inga Reykjalín Sveinssonar og Fjólu Maríu Ágústsdóttur um stafræna umbreytingu hins opinbera er því miður ekki hægt að birta vegna galla á hljóðskrá. Beðist er velvirðingar á stopulum hljóðgæðum í hugvekju Sveins Margeirssonar.

Eftir hádegi voru fluttar reynslusögur af árangursríkri nýsköpun í opinberum rekstri. Þar kom t.a.m. fram hvernig stofnanir geta mætt áskorunum í sameiningu með nýskapandi leiðum, kynning á brautryðjandi smáforriti landsspítalans fyrir sjúklinga, árangursrík framþróun í velferðartækni hjá Reykjavíkurborg og fleiri áhugaverðar sögur.