Betra Ísland

Lýsing

Kópavogur og Garðabær eru meðal þeirra sveitarfélaga sem hafa notað Betra Ísland í margs konar verkefni. Kópavogur hefur notað Betra Ísland 1-4 sinnum á ári síðan árið 2016 en Garðabær hefur notað kerfið a.m.k. einu sinni á ári frá 2019.

Sveitarfélög geta notað Betra Ísland til að setja upp hugmyndasöfnun á verkefnum þar sem hægt er að kjósa á milli hugmynda og taka þátt í umræðu fyrir hverja hugmynd. Hægt er að nota þennan vettvang í bæði opinberum verkefnum þar sem margir íbúar taka þátt í ákvörðunartöku eða í litlum lokuðum verkefnum þar sem hópur fólks getur unnið saman að hugmyndum, rökræðum og ákvörðunum.

Kópavogur

Stærsta verkefni Kópavogs er Okkar Kópavogur, sem er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í bænum. Annað hvert ár er hugmyndum safnað frá íbúum og þær settar í kosningu íbúanna. Auk þess notar Kópavogur Betra Ísland í rafrænu samráði við íbúa og starfsfólk Kópavogsbæjar, t.d. til að fá álit á og safna hugmyndum frá íbúum varðandi drög að uppfærðum mennta- og lýðheilsustefnu, innleiðingu barnasáttmálans og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, með meiru.

Þátttaka íbúana er mjög mismunandi eftir markhópum og verkefnum. Mörg verkefnanna eru takmörkuð við ákveðna hópa. Þátttaka í hugmyndasöfnun Okkar Kópavogs haustið 2021 var með eindæmum góð, um 2500 íbúar tóku þátt með einum eða öðrum hætti.

 

Garðabær

Hugmyndasöfnun fór af stað árið 2019 hjá Garðabæ með íbúum sveitarfélagsins í verkefninu Betri Garðabær. Frá því að Garðabær fór að nota kerfið hefur það verið notað í fjölbreyttum lýðræðisverkefnum, s.s. hugmyndasöfnun fyrir framkvæmdir í sveitarfélaginu, við gerð fjárhagsáætlunar og stefnumótunar. Í verkefninu Betri Garðabær, senda íbúar inn hugmyndir um verkefni sem þau vilja sjá framkvæmd í sveitarfélaginu og forgangsraða svo fjármagni í ákveðin verkefni.

Þátttaka íbúa í verkefninu Betri Garðabær hefur verið mjög góð og jókst milli ára. Minni þátttaka hefur verið í fjárhagsáætlunarverkefninu og í stefnumótandi verkefnum sem er um leið tækifæri til að gera betur og efla þátttöku íbúa.

Um lausnina

Á bakvið Betra Ísland eru Íbúar – Samráðslýðræði ses, sjálfseignarstofnun sem er ekki rekin í hagnaðarskyni.

Tengiliður hjá Betra Ísland

Róbert Bjarnason
robert@ibuar.is

Hlekkir

Sveitarfélög sem hafa notað kerfi

  • Reykjavík
  • Kópavogur
  • Hafnarfjörður
  • Garðabær
  • Mosfellsbær
  • Seltjarnarnes
  • Borgarbyggð
  • Snæfellsbær
  • Stykkishólmur
  • Vesturbyggð
  • Ísafjörður
  • Bolungarvík
  • Skagafjörður
  • Akureyri
  • Norðurþing
  • Fljótdalshreppur
  • Árborg
  • Grindavík
  • Reykjanesbær
  • Suðurnesjabær

Tengiliður hjá Kópavogi

Sigrún María Kristinsdóttir
verkefnastjóri íbúatengsla

Tengiliður hjá Garðabæ

Sólveig Helga Jóhannsdóttir skipulagsfræðingur

Kostir þess að nota Betra Ísland

  • Kerfið er sjónrænt fyrir notendur
  • Kerfið er notendavænt og einfalt í notkun fyrir þátttakendur
  • Auðvelt að halda utan um verkefnin
  • Auðvelt að taka samtalið við íbúa og milli þeirra
  • Allt sem safnast frá íbúum er alltaf aðgengilegt á vefnum
  • Leiðbeiningar eru á íslensku
  • Hægt að fá aðstoð frá stofnuninni

Áskoranir

  • Það getur reynst erfitt að ná til eldri borgara sem nota snjallsíma og tölvur lítið eða ekki

Hentar lausnin þínu sveitarfélagi?

Lausnin getur hentað þeim sveitarfélögum vel sem eru opin fyrir samtali við íbúa og vilja nota stafrænar lausnir til að ná til íbúana og fá þeirra álit.

Tilvitnanir

Sólveig Helga Jóhannsdóttir, frá Garðabæ = “Hvet önnur sveitarfélög til að kynna sér lausnina og fleiri lausnir til að eiga samtal og samráð við íbúa. Það koma alltaf skemmtilegar hugmyndir sem hægt er að vinna með.”