Stafrænn frímiði á gámasvæði
Lýsing
Árborg tók upp notkun stafræns frímiða á gámasvæði fyrr á þessu ári. Miðinn leysti af hólmi heimsendan frímiða í gámastöð sveitarfélagsins sem íbúar hafa fengið sendan árlega. Frímiðinn veitir eina ókeypis heimsókn með sorp á sorpmóttökustöðina og er til notkunar í veskis-forriti á snjallsíma.
Um lausnina
Lausnin var þróuð í samstarfi við SmartSolutions sem sérhæfir sig í stafrænum kortum og miðum.
Sveitarfélög sem hafa innleitt kerfi
Tengiliður hjá Árborg
Sigríður M. Björgvinsdóttir – deildarstjóri upplýsingatækni og stafrænnar þróunar
sigridurm@arborg.is
Hvað þarf til að setja frímiðann upp?
Íbúar geta sótt sinn fríðmiða á íbúagáttinni “Mín Árborg” þar sem hægt er að skanna inn QR kóða til að fá miðann í símann eða prenta út ef viðkomandi vill það frekar eða er ekki með snjallsíma.
Til að sækja og nota frímiðann þarf snjallveski. Í iPhone er það Apple Wallet en fyrir Android síma þarf að hlaða niður veskinu (SmartWallet á Google Play) sérstaklega í símann. Snjallveskið vistar frímiðann á sama hátt og ökuskírteini, flugmiða og önnur skírteini. Allir á sama heimili geta hlaðið niður miðanum en það er einungis hægt að nota hann einu sinni.
Á gámastöðinni eru starfsmenn með uppsett smáforrit (e. app) í sínum síma sem inniheldur skanna til að lesa miðana. Forritið les hvern miða einu sinni og lætur vita ef miðinn hefur þegar verið notaður.
Kostir frímiðans
- Sparnaður við útprentun og útburð frímiðana. Lausnin er ódýrari en að prenta og kaupa dreifingu.
- Einfaldara fyrir íbúa að nálgast miðann sinn (gleymist síður heima), er til taks í símanum.
- Ekki er hægt að fjölfalda miða eða nota miða nágranna.
- Hægt að endurnýta lausnina að ári.
- Hægt að fylgjast betur með notkun frímiðans með tölulegum upplýsingum á einfaldan hátt.
- Umhverfisvænni lausn.
Áskoranir
Áskoranir fólust í að tengja aðila sem sáu um forritun og uppsetningu á frímiðanum við þjónustuaðila með íbúagáttina. Upp kom misskilningur og prófanir voru ekki fullnægjandi en fljótlegt var að laga þá hnökra sem komu upp.
Sigríður mælir með að aðili frá sveitarfélaginu sjái um öll samskipti og skipulagningu verkefnisins þar til það er komið í notkun.
Hentar lausnin þínu sveitarfélagi?
Lausnin getur hentað öllum sveitarfélögum fyrir allar tegundir miða og skírteina.