Stefnumótunarvinnustofa samstarfs sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu

Vinnustofa var haldin föstudaginn 26. ágúst sl. um samstarf sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu. Þátttakendur vinnustofunnar voru einstaklingar úr faghópi um stafræna umbreytingu og stafrænu ráði sveitarfélaga, alls 17 manns frá 10 sveitarfélögum.

Fyrri hluti vinnustofunnar gekk út á það að kynna stöðuna, þ.e. farið var yfir þau markmið sem til umræðu verða á Landsþingi þann 29. september, niðurstöður greiningar á stöðu skrifstofuhugbúnaðarumhverfi sveitarfélaganna sem gefin var út í júní 2022 sem unnin var í samstarfi við KPMG og kynning á samvinnuverkefni sveitarfélaganna með stafrænu umbreytingarteymi sambandsins og Stafræns Íslands um hvaða þjónustu sveitarfélaganna væri hægt að vinna inn á Ísland.is og forgangsröðun þeirra.  Umræða var um þátttökuskilmála sveitarfélaga í samstarfinu og núverandi samstarfsverkefni.

Fjóla María Ágústsdóttir kynnti stöðu vinnu og verkefna stafræna umbreytingateymisins,  Hjálmur Hjálmsson kynnti greiningu KPMG á skrifstofuhugbúnaðarumhverfi sveitarfélaga og Lína Viðarsdóttir kynnti greiningu og vegvísi umsóknarferla inn á Ísland.is. 

Eftir hádegi var sýn, markmið og aðgerðir skilgreindar fyrir samstarf sveitarfélaga.  Fókusspurningar voru hvernig tryggjum við örugga og hagkvæma tæknilega innviði sveitarfélaga, hvað þarf að gera til að nútímavæða skrifstofuhugbúnaðarumhverfið, hvernig bætum við notendamiðaða stafræna þjónustu sveitarfélaga, hvernig eflum við hlutverk miðlægrar einingar (stafræns umbreytingateymis) svo hún þjónusti og styðji sem best við sveitarfélög og  hvernig tryggjum við fjármögnun þessarar framþróunar sveitarfélaga.